Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United var afar ánægður með sína menn í kvöld, þegar þeir unnu Schalke 4:1, og kvaðst fullviss um að liðið sem hann tefldi fram, án margra fastamanna, gæti orðið Evrópumeistari.
„Þetta lið gæti unnið bikarinn, við erum með frábært lið með ómælda hæfileika. Barcelona er án efa lið augnabliksins, þeir spila stórkostlegan fótbolta og eru augnayndi. Við munum búa okkur vel undir að mæta þeim en framundan er stórleikur á sunnudaginn og við hlökkum til hans," sagði Ferguson en lið hans mætir Barcelona í úrslitaleiknum á Wembley 28. maí.
Hann hvíldi níu leikmenn sem voru í byrjunarliðinu í fyrri leiknum gegn Schalke. „Ég gat ekki sofið, vaknaði fjórum sinnum í nótt, en ég er stoltur af þeim. Þegar ég fór yfir hvern einstakling sá ég að þetta væru allt leikmenn Manchester United, og þá ætti ég að geta notað þá alla. Vegna þess að þetta var undanúrslitaleikur í Meistaradeildinni var ég ekki viss um hvort ég hefði gert rétt með því að velja þetta lið en ég er ánægður með að ég lét slag standa," sagði Ferguson við fréttamenn í leikslok.