Jóhannes Karl Guðjónsson og félagar í Huddersfield enduðu í þriðja sæti ensku 2. deildarinnar og mæta því Bournemouth í umspilsleikjum. Huddersfield gerði í dag jafntefli við Brentford í miklum markaleik sem endaði 4:4. Jóhannes Karl var í byrjunarliðinu og spilaði allan leikinn.
Í hinni umspilsviðureigninni mætast Peterborough og MK Dons. Liðin sem hafa betur í tveimur viðureignum mætast og spila um það hvort liðið fylgi Brighton, sem vann deildina og Southampton, sem endaði í öðru sæti, upp í 1. deildina.
Kári Árnason var á varamannabekk Plymouth sem steinlág heima fyrir Leyton Orient 4:1. Plymouth féll úr deildinni.
Ármann Smári Björnsson var ekki í leikmannahóp Hartlepool sem gerði markalaust jafnefli við Charlton. Hartlepool heldur sæti sínu í deildinni en það var ljóst fyrir lokaumferðina.