Meistaratitillinn blasir við Man.Utd

Javier Hernández sendir boltann í mark Chelsea eftir 35 sekúndna …
Javier Hernández sendir boltann í mark Chelsea eftir 35 sekúndna leik. Reuters

Manchester United fór langt með að tryggja sér enska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir sigur á Chelsea, 2:1, í uppgjöri efstu liða úrvalsdeildarinnar á Old Trafford í dag.

Javier Hernández kom United yfir eftir 35 sekúndur og Nemanja Vidic bætti við marki á 23. mínútu. Frank Lampard minnkaði muninn fyrir Chelsea um miðjan síðari hálfleik.

Manchester United hefur 76 stig, Chelsea 70 stig og Arsenal 67 þegar tveimur umferðum er ólokið. United sækir Blackburn heim um næstu helgi og verður meistari með jafntefli.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Flautað af og mjög verðskuldaður sigur Manchester United í höfn. Gríðarlegur fögnuður brýst út á meðal leikmanna og stuðningsmanna liðsins á Old Trafford.

86. Javier Hernández skallar boltann yfir mark Chelsea úr sannkölluðu dauðafæri í markteignum, eftir fyrirgjöf frá hægri.

82. Wayne Rooney fær tvö góð færi á sömu mínútunni. Í fyrra skiptið nær Petr Cech að loka á hann utarlega í vítateignum og síðan kemur varnarmaður fæti fyrir boltann sem skrúfast yfir Cech og í horn.

70. Alex bjargar á marklínu Chelsea á hreint ótrúlegan hátt þegar Javier Hernández virtist vera að færa United tveggja marka forskot á ný.

69. MARK - 2:1. Frank Lampard minnkar muninn fyrir Chelsea. Ramires sendir fyrir frá hægri, Branislav Ivanovic skallar boltann inní markteiginn þar sem Lampard stýrir honum í netið.

53. Chelsea sleppur með skrekkinn þegar United hefði hæglega getað fengið vítaspyrnu. Fyrirgjöf og boltinn fer greinilega í hönd varnarmanns og breytir stefnu.

45. Hálfleikur á Old Trafford og Manchester United er með verðskuldaða forystu, 2:0, eftir líflegan fyrri hálfleik.

43. Michael Essien hjá Chelsea fær gula spjaldið. Branislav Ivanovic fékk gult spjald snemma og slapp með skrekkinn eftir brot á Wayne Rooney þar sem hann hefði getað fokið útaf. Rooney er líka búinn að fá gula spjaldið í leiknum.

23. MARK - 2:0. Nemanja Vidic skorar með skalla eftir fyrirgjöf Ryans Giggs frá vinstri. Markið kemur uppúr hornspyrnu en hana fékk United eftir að Petr Cech varði hörkuskot frá Park í horn.

15. Manchester United hefur spilað af miklum krafti og verið tvívegis nærri því að bæta við marki eftir þessa frábæru byrjun.

1. MARK - 1:0. Javier Hernández skorar fyrir United eftir aðeins 35 sekúndur, sleppur í gegnum miðja  vörn Chelsea eftir sendingu frá Park Ji-sung og skorar af öryggi.

Manchester United er með 73 stig og Chelsea 70 þegar bæði lið eiga þremur leikjum ólokið. Sigri United í dag þarf liðið eitt stig enn gegn Blackburn eða Blackpool í lokaumferðunum.

Man Utd: Van der Sar, Fabio Da Silva, Ferdinand, Vidic, O'Shea, Valencia, Carrick, Giggs, Park, Rooney, Hernandez.
Varamenn: Kuszczak, Anderson, Berbatov, Smalling, Nani, Scholes, Evans.

Chelsea: Cech, Ivanovic, Terry, David Luiz, Cole, Mikel, Lampard, Essien, Kalou, Drogba, Malouda.
Varamenn: Turnbull, Ramires, Torres, Benayoun, Ferreira, Alex, Anelka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert