Bryan Hughes, fyrrum samherji Hermanns Hreiðarssonar hjá Charlton Athletic í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, er genginn til liðs við Eyjamenn og spilar væntanlega með þeim í sumar. Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV staðfesti þetta við Fótbolta.net rétt áðan.
Hughes er 34 ára gamall miðjumaður og spilaði með Charlton frá 2004 til 2007 og svo með Hull frá 2007 til 2010. Í vetur spilaði hann með Burton í 3. deild og Grimsby í úrvalsdeild utandeildanna. Hann á að baki 128 leiki og 10 mörk í úrvalsdeildinni.
Hughes, sem er fæddur í Liverpool og hóf ferilinn með Wrexham, lék með Birmingham í sjö ár áður en hann gekk til liðs við Charlton og spilaði 247 leiki með liðinu í tveimur efstu deildunum í Englandi og skoraði 34 mörk. Hughes lék á sínum tíma einn leik með enska 21-árs landsliðinu, vináttulandsleik gegn Ítalíu.
,,Hann hefur verið meiddur og við erum að skoða hann og sjá hvað hann getur gefið okkur. ,Hann er að reyna að koma sér í stand og fá leiki. Það er hans tilgangur með þessu. Ef hann er heill þá er þetta klassamiðjumaður," sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV við Fótbolta.net í dag.
Hughes yfirgaf Hull City í janúar 2010. Hann reyndi fyrir sér hjá Cardiff, Huddersfield og Walsall en gerði að lokum eins mánaðar samning við 3. deildarliðið Burton í desember. Hann samdi síðan við Grimsby í janúar og spilaði með liðinu til vorsins en fékk ekki nýjan samning þar.