Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United telur að ekki rétt fyrir menn að vanmeta lið sitt í baráttunni gegn Spánarmeisturum Barcelona um Evrópumeistaratitilinn en liðin leika til úrslita á Wembley þann 28. þessa mánaðar.
Þessi sömu félög áttust við í úrslitaleik fyrir tveimur árum þar sem Börsungar fóru með sigur af hólmi. Barcelona þykir sigurstranglegra liðið í úrslitarimmunni en Ferguson er hvergi banginn.
,,Það tala allir um hversu frábært lið Barcelona er en Manchester United er í úrslitum. Allir segja að þetta Manchester United sé ekki gott og við séum ekki svona og og svona. En við höfum skorað fleiri mörk en öll önnur lið í deildinni, árangur okkar á heimavelli er stórkostlegur og við höfum ekki tapað leik í Meistaradeildinni. Við er úrslitum í Meistaradeildinni og þurfum eitt stig til viðbótar til að hampa Englandsmeistaratitlinum,“ sagði Ferguson í viðtali við útvarpsstöðina Sirius XM.
,,Síðast þegar við mættum Barcelona í úrslitum þá byrjuðum við leikinn mjög vel en fengum síðan á okkur slæmt mark og eftir það hélt Barcelona boltanum vel innan liðsins eins og það gerir alltaf. Það sem við þurfum að gera er að halda Xavi, Messi og Iniesta í skefjum. Ég tel að við getum vel lagt Barcelona að velli.“