Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segir að sigur Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu vori verði Liverpool enn frekari hvatning til að komast aftur í toppslag deildarinnar á næsta keppnistímabili.
Svo framarlega sem United missir ekki af meistaratitlinum á lokasprettinum í vor verður félagið enskur meistari í 19. skipti og siglir þar með framúr Liverpool sem hefur á þriðja áratug verið sigursælasta lið Englands með 18 meistaratitla á sínum verðlaunalista.
„Þetta er sárt að því leyti að við áttum metið lengi. En við verðum að viðurkenna og virða orðinn hlut, þeir eru komnir framúr okkur sem stendur. Það jákvæða frá okkar sjónarhóli er það að við erum á réttri leið á ný og munum leggja allt í sölurnar til að komast framúr þeim á ný. Það er e ngin hætta á öðru," sagði Gerrard við The Mirror.
„Það verður okkur mikil hvatning að sjá erkifjendurna fara framúr okkur í unnum meistaratitlum. Við getum áfram fagnað fleiri sigrum í Evrópukeppni en þurfum að leiðrétta stöðuna 19:18. Við munum allir leggja allt í sölurnar til þess," sagði Steven Gerrard sem er að jafna sig af aðgerð og vonast til að vera kominn í gott stand þegar nýtt undirbúningstímabil hefst í sumar.