Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham reiknar ekki með því að forráðamenn Manchester City hætti að eyða fúlgu fjár í leikmenn fyrr en það hefur innbyrt bæði sigur í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.
Redknapp og lærisveinar hans sækja City heim í kvöld. Með sigri gulltryggir City sér fjórða sætið í deildinni og þar með sæti í Meistaradeildinni en Tottenham hafnaði í því sæti í fyrra en er nú í sjötta sætinu.
,,Maðurinn frá Abu Dhabi á svo mikla peninga og auðvitað skiptir það máli í þessum fótboltaheimi í dag ef eigendurnir eru efnaðir. Þeir munu ekkert láta stöðva sig í að halda áfram að kaupa rándýra leikmenn fyrr en þeir vinna úrvalsdeildina og jafnvel Meistaradeildina,“ segir Redknapp.
,,Ég reikna með því að City takist að verða Englandsmeistari á næstu árum og að liðið verði í baráttunni um titilinn strax á næsta ári. Leikmannahópur liðsins er stór og sterkur og í hópnum eru leikmenn sem fá yfir 200.000 pund í vikulaun sem er hreint brjálæði.