Enska knattspyrnufélagið Manchester City hafnar fregnum enskra og spænskra fjölmiðla um að verið sé að undirbúa risatilboð í Cristiano Ronaldo, hinn snjalla portúgalska leikmann Real Madrid og fyrrum stjörnu nágrannanna í Manchester United.
Tölur eins og 150 milljónir punda hafa verið nefndar í þessu samhengi en forráðamenn City hafa sagt að þeir muni kaupa fáa en góða leikmenn í sumar.
„Vangaveltur þar sem félagið er orðað við Ronaldo eru ekki á rökum reistar og algjörlega úr lausu lofti gripnar. Það er enginn vafi á því að Ronaldo er einn besti knattspyrnumaður heims en hann er ekki á lista yfir þá leikmenn sem félagið hefur áhuga á að kaupa," sagði forráðamaður City við Sky Sports í morgun.
Real Madrid keypti Ronaldo af Manchester United fyrir 80 milljónir punda sumarið 2009.