AFC Wimbledon tryggði sér í dag sæti í ensku deildakeppninni þegar liðið hafði betur gegn Luton í úrslitaleik í umspili úrvalsdeildar utandeildafélaganna. Staðan var markalaus eftir framlengdan leik en AFC Wimbledon hafði betur í vítaspyrnukeppni, 4:3.
AFC Wimbledon hefur aldrei leikið í deildakeppninni en félagið varð til fyrir níu árum þegar reiðir stuðningsmenn stofnuðu það í kjölfar flutnings gamla Wimbledon-liðsins frá suðurhluta London til Milton Keynes, borgar norðvestur af London. Það félag heitir í dag MK Dons og spilar í 2. deildinni.
AFC Wimbledon hefur farið upp um fimm deildir á þessum níu árum og er nú komið uppí 3. deild, og er aðeins einni deild fyrir neðan MK Dons. Stuðningsmenn AFC Wimbledon hafa ítrekað lýst því yfir að ef komi til þess að lið þeirra mæti MK Dons, í deild eða bikar, muni þeir ekki mæta á völlinn. Þeir telja lið MK Dons ekki eiga neinn tilverurétt.
Luton missti þarna naumlega af því að komast aftur í deildakeppnina eftir tveggja ára fjarveru. Félagið hrapaði úr 2. deild og útúr deildakeppninni eftir að hafa verið beitt þungum refsingum tvö ár í röð og misst tugi stiga sem gerðu liðinu ókleift að halda sæti sínu.
Crawley Town vann úrvalsdeild utandeildaliðanna með miklum yfirburðum og leikur í fyrsta skipti í 3. deild næsta vetur. Liðin í öðru til fimmta sæti fóru í umspil.