Michael Owen framherji úr Manchester United vill vera áfram í herbúðum félagsins en sóknarmaðurinn knái varð Englandsmeistari í fyrsta sinn á ferlinum og skoraði lokamark liðsins í deildinni á tímabilinu þegar hann innsiglaði 4:2 sigur liðsins á móti Blackpool.
Samningur Owens við United rennur út í sumar en kom til liðsins á frjálsri sölu frá Newcastle fyrir tveimur árum. Engar fregnir hafa borist frá forráðamönnum United hvort Owen verði boðinn nýr samningur.
,,Ég vil vera áfram hjá Manchester United því þetta er frábært félag. Það mun skýrast á næstu vikum og ég mun ræða við stjórann. Þessi vika er það mikilvæg svo það hefur ekki gefist tími til að ræða þessi mál en við munum gera það þegar tímabilinu lýkur,“ sagði Owen við fréttamenn í gær.
Owen, sem er 31 árs gamall, hefur á tveimur tímabilum með Manchester United komið við sögu í 47 leikjum, oftast sem varamaður, og hefur í þeim skorað 13 mörk.