Barcelona vann Manchester United 3:1 í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. Barcelona sýndi það í kvöld að þeir eru besta félagslið Evrópu. Pedro, Messi og David Villa skoruðu mörk Evrópumeistaranna en Wayne Rooney skoraði eina mark Manchester United.
Staðan í hálfleik var 1:1 en það var aldrei nema fyrstu 10 mínúturnar sem United hafði roð í spænska liðið.
Pep Guardiola er því búinn að jafna Alex Ferguson þegar kemur að titlum í Meistaradeildinni en báðir hafa þeir unnið tvo titla. Þetta var í annað skiptið á þremur árum sem Barcelona vinnur United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, í bæði skiptin með tveimur mörkum. Þeir unnu í Róm árið 2009, 2:0.
Manchester United - Barcelona, 1:3. (Rooney 34. - Pedro 27., Messi 54., Villa 69.)
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér fyrir neðan.
20.35 Barcelona gerir skiptingu, Pedro fer af velli en Ibrahim Affelay kemur inná.
20.34 Uppbótartíminn er þrjár mínútur.
20.31 Fyrirliði Barcelona Carles Puyol kemur inná fyrir Dani Alves á 88. mínútu. Sannkölluð heiðursskipting fyrir Puyol sem sennilega var tæpur fyrir leikinn. Honum er vel fagnað af stuðningsmönnum Barcelona á Wembley.
20.29 Barcelona gerir breytingu á sínu liði. Markaskorarinn David Villa fer af velli á 85. mínútu og Keita kemur inná í hans stað. Þá fékk Victor Valdes gult spjald fyrir tafir skömmu áður.
20.28 Nani á ágæta tilraun fyrir utan vítateigin en boltinn framhjá markinu.
20.26 Það verða að öllum líkindum stuðningsmenn Barcelona sem fagna í kvöld því þegar 6 mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma þá spila leikmenn Barcelona sín á milli og United nær ekki að skapa sér nein færi.
20.23 Gult. Antonio Valencia fær gult spjald á 79. mínútu fyrir ítrekuð brot.
20.22 Ryan Giggs vill fá vítaspyrnu þegar boltinn fer greinilega í hönd David Villa. Líkt og í fyrri hálfleik þegar boltinn fór í höndina á Evra var þetta af stuttu færi og líklega gerir dómarinn rétt með því að sleppa þessu enda hendin meðfram síðunni.
20.19 Alex Ferguson gerir aðra breytingu á sínu liði á 77. mínútu. Paul Scholes kemur inná í stað Michael Carrick. Gæti verið síðasti leikur Scholes fyrir United.
20.12 Mark! - 1:3. David Villa kemur Barcelona í 3:1 og nú eru úrslitin nánast ráðin miðað við gang leiksins hingað til þar sem United hefur átt erfitt með að halda boltanum innan liðsins. Villa fékk sendingu frá Sergio Busquets út fyrir teiginn og í kyrrstöðu frá vítateigsboganum miðjum smellti hann boltanum efst í bláhornið. Glæsilegt mark á 69. mínútu, strax í kjölfar skiptingarinnar hjá United!
20.12 Fyrsta skiptingin hjá United, Fabio kemur af velli á 69. mínútu en Nani kemur inná.
20.09 Enn eru það leikmenn Barcelona sem halda Van der Sar við efnið. Að þessu sinni var það Xavi sem skaut að marki fyrir utan vítateigsbogann miðjan en Van der Sar ver boltann í horn. Í kjölfarið átti Iniesta skot sem Hollendingurinn greip í markinu. Það eru 67 mínútur liðnar og tíminn vinnur með Barcelona sem eru langt frá því að vera hættir að sækja. Hlítur að fara að koma að skiptingu hjá Alex Ferguson knattspyrnustjóra Manchester United.
20.08 Messi á aðra tilraun að marki United nú með hælnum af markteig eftir góða sendingu frá Alves á hægri kanntinum en Fabio bjargar á línu.
20.06 Lionel Messi heldur áfram að ógna marki United. Nú átti hann skot af stuttu færi innan vítateigs sem Van der Sar náði að verja.
20.04 Gult. Michael Carrick fær annað gula spjald leiksins á 61. mínútu leiksins fyrir brot á Andrés Iniesta.
20.03 Gult. Dani Alves fær fyrsta gula spjaldið í leiknum fyrir brot á Evra á 60. mínútu.
19.57 Mark! - 1:2 Lionel Messi skorar fyrir Barcelona á 54 mínútu, hans fyrsta á enskri grundu. Hann fékk boltann fyrir utan vítateig og enginn varnarmaður United sótti að honum. Hann nýtti sér það eins og honum er líkast til og smellti boltanum hægra megin við Van der Sar í marki United. Ótrúleg varnarvinna hjá United sem hefur ekki sýnt af sér svona kæruleysi fyrr í leiknum.
19.55 Barcelona fékk fínt færi á 52. mínútu þegar Dani Alves komst einn fram hægri kanntinn og að markinu en Van der Sar varði vel í markinu. Boltinn barst til Messi sem náði ekki að koma skotinu á markið heldur skallaði varnarmaður United hann í burtu.
19.50 Nú pressa Barcelona og fá aðra hornspyrnu.
19.49 Barcelona byrjaði með boltann og fékk strax hornspyrnu.
19.48 Seinni hálfleikur úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu hefur verið flautaður á af ungverskum dómara leiksins sem stóð sig vel í fyrri hálfleik.
Hálfleikur staðan er 1:1. United byrjaði þennan leik betur en síðan tóku leikmenn Barcelona öll völd á vellinum og komust yfir með marki frá Pedro á 27. mínútu. Aðeins sjö mínútum síðar jafnaði Wayne Rooney metin fyrir United og þeir geta verið sáttir með stöðuna í hálfleik því eftir markið hefur Barcelona átt tvö ágæt færi.
19.30 Dauðafæri hjá Barcelona, Messi fer fram miðjuna og platar Vidic. Sendir síðan boltann til hægri þar sem David Villa reynir aftur að koma honum fyrir á Messi sem hélt hlaupinu áfram en hann nær ekki til boltans. Spurning hvort Villa hefði ekki hreinlega átt að skjóta á markið.
19.25 Eftir markið hafa leikmenn Barcelona átt tvö langskot að marki United en Edwin van der Sar vandanum vaxinn í markinu.
19:21 Mark! - 1:1. Wayne Rooney er búinn að jafna metin fyrir Manchester United á 34. mínútu. Barcelona átti þá innkast á sínum vallarhelmingi vinstri megin. United vann hinsvegar boltan á miðjum vallarhelmingnum og Rooney tók þó gott þríhyrningsspil við Carrick og hélt að teignum, sendi boltann á Giggs sem kom honum aftur út á Rooney. Hann smellti svo boltanum í fjær hornið af vítateigslínunni með hægri fæti. Glæsilega gert en þetta var svo sannarlega óvænt og ekkert sem bennti til þess að þeir væru að fara að jafna metin. Nú fáum við alvöru leik!
19:14 Mark! - 0:1 Pedro skorar fyrir Barcelona eftir frábæra sendingu frá Xavi. Hann sendi boltann út til hægri þar sem Pedro tók eina snertingu, laggði hann fyrir sig og skoraði á nær hornið. Edwin van der Sar réð ekki við flott skot hans. Markið á 27. mínútu en það lág í loftinu enda Barcelona búið að pressa stíft síðustu mínúturnar.
19.06 David Villa með skot frá vítateigsboganum en það rétt framhjá. Barcelona er að taka öll völd á vellinum. Skömmu síðar á hann svo aftur skot eftir sendingu frá Xavi sem Van der Sar ver vel og heldur boltanum.
19.02 Barcelona á hættulegasta færi leiksins það sem af er. Eftir tæpar fimmtán mínútur af þessum leik. Andrés Iniesta sendi þá boltann fyrir markið frá hægri og Pedro stakk sér fram fyrir varnarmenn United en skaut framhjá af markteig. Ótrúlegt að sjá hann klúðra úr svona færi!
19.00 Síðustu mínúturnar hafa leikmenn Barcelona fengið að spila meira sína knattspyrnu og eru í kjölfarið hættulegri en þeir voru í upphafi. Þá fór boltinn í hendina á Patrice Evra varnarmanni United eftir hornspyrnuna en það af stuttu færi og ekki víst að dómarinn hafi séð það.
18.57 Fyrsta horsnpyrna leiksins er Barcelona.
18.54 Javier Hernandez minnir á sig og á skot yfir markið en aðstoðardómarinn var búinn að flagga rangstöðu. Flott sending engu að síður frá Carrick og United byrjar þetta af miklu meiri krafti.
18.50 Þegar fimm mínútur eru liðnar af leiknum er enn markalaust. United byrjar þó af meiri krafti og pressa leikmenn Barcelona.
18.45 Leikurinn er hafinn og United byrjar með boltann.
18.41 Fjórar mínútur í að stærsti leikur ársins hefjist.
18.33 Þrátt fyrir að hafa spilað 627 mínútur í Meistaradeild Evrópu á enskri grundu hefur Lionel Messi ekki enn náð að skora á Englandi. Ótrúleg staðreynd hjá einum besta knattspyrnumanni heims.
18:16 Ferguson lét eftirfarandi hafa eftir sér hjá ITV sjónvarpsstöðinni um þá ákvörðun að hafa ekki Dimitar Berbatov á bekknum í það minnsta. „Þetta er versti hlutinn. Það ætti að hafa 11 varamenn í úrslitaleiknum. Þetta er erfitt og skelfilegt að þurfa að taka þessa ákvörðun. Við þurftum að meta hvað við þyrftum að hafa fyrir þennan leik og ég ákvað að við þyrftum þrjá miðjumenn [á bekkinn].“
Samt sem áður vekur athygli að Owen er á bekknum í stað Berbatov.
17.54 Vegna meiðsla þarf fyrirliði Barcelona, Carles Puyol að byrja á bekknum. Javier Mascherano kemur í miðvarðastöðuna í hans stað og Abidal verður í vinstri bakverði.
17.50 Lið Manchester United: Van Der Sar, Fabio ,Ferdinand, Vidic, Evra; Valencia, Carrick, Giggs, Park; Rooney, Hernandez.
Varamenn: Kuszczak, Smalling, Fletcher, Scholes, Anderson, Nani, Owen
Lið Barcelona: Valdes; Alves Mascherano Pique Abidal; Xavi, Busquets Iniesta; Pedro, Messi, Villa.
Varamenn: Oier, Puyol, Bojan, Keita, Afellay, Adriano, Thiago
Viktor Kassai frá Ungverjalandi dæmir leikinn og Geir Þorsteinsson formaður Knattspyrnusambands Íslands er eftirlitsmaður.