Edwin van der Sar, hollenski markvörðurinn, spilaði í kvöld sinn síðasta leik á ferlinum þegar Manchester United tapaði 1:3 fyrir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Hann leggur nú hanskana á hilluna, fertugur að aldri. Hann hóf að leika með Ajax árið 1990 og spilaði 605 deildaleiki í Hollandi og Englandi. Hann spilaði í Englandi með Fulham frá 2000 til 2005 og hefur varið mark United undanfarin sex ár.
"Ferillinn var líklega einum leik of langur. Það er aldrei gaman að tapa. Þeir fengu betri færi en við gerðum okkur seka um mistök og þeir refsuðu okkur. Við hefðum þurft að ná forystu og gerðum það ekki. Að sjálfsögðu hefði ég ekki viljað láta minn síðasta leik enda svona en maður getur ekki alltaf ráðið því hvernig fótboltaleikir fara," sagði van der Sar við Sky Sports.