Ferguson: Erfitt að skilja Berbatov eftir

Dimitar Berbatov var ekki í hópnum hjá Manchester United í …
Dimitar Berbatov var ekki í hópnum hjá Manchester United í gærkvöld. Reuters

Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United hefur útskýrt hvers vegna hann var ekki með Dimitar Berbatov í leikmannahópi sínum í úrslitaleiknum gegn Barcelona í gærkvöld. Hann sagði ekkert til í fréttum um að Berbatov hefði yfirgefið Wembley áður en leikurinn hófst.

Mikla athygli vakti að Berbatov var ekki í endanlegum 18 manna hópi fyrir leikinn en hann var markahæsti leikmaður liðsins í ensku úrvalsdeildinni í vetur með 21 mark, ásamt Carlos Tévez.

„Það var afar erfið ákvörðun að skilja Berbatov eftir. Það var auðvelt að velja byrjunarliðið en ég var í vandræðum með að velja varamennina. Ég vildi vera með næga valkosti á miðjunni því ég taldi það mikilvægast í þessum leik.

Ég tók þá áhættu að vera bara með einn varamann á bekknum (Chris Smalling), svo ég hefði úr sem mestu að velja á miðjunni og á köntunum. Síðan þurfti ég að velja á milli Michaels Owens og Dimitars Berbatov og þá var kosturinn sá að velja þann sem gæti komið inná og skorað á lokamínútunum. Þar vildi ég hafa reynslu Owens tiltæka," sagði Ferguson við ESPN.

Hann vísaði á bug fréttum um að Berbatov hefði yfirgefið Wembley þegar í ljós kom að hann væri ekki í leikmannahópnum. „Það er ekki rétt. Hann var í búningsklefanum með okkur í lokin," sagði Ferguson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert