Brynjar Björn Gunnarsson segir að það geti vel farið svo að hann kveðji Reading eftir stórleikinn gegn Swansea á Wembley-leikvanginum í London í dag en þar leika liðin til úrslita um sæti í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Brynjar er aftur kominn á Wembley en þar lék hann með Stoke City fyrir 11 árum, aðeins þremur mánuðum eftir að hann hóf langan feril sinn í ensku knattspyrnunni. Stoke vann þá Bristol City 2:1 í úrslitaleik í bikarkeppni neðrideildarliða frammi fyrir 75 þúsund áhorfendum.
„Ég spilaði á gamla Wembley með Stoke. Þó við værum bara í 2. deild, fengum við gífurlegan stuðning og stemningin var mögnuð. Bristol City var líka með mikinn fjölda fólks og þetta var stórkostlegur dagur," sagði Brynjar við netmiðilinn GetReading.
Hann sagði að það gæti vel farið svo að þetta yrði í síðasta skipti sem hann klæðist búningi Reading.
"Eftir leikinn reikna ég með því að ræða við félagið um framhaldið. Það hefði verið alveg eins ef tímabilinu hefði lokið 7. maí. Þetta gæti verið minn síðasti leikur með Reading, en þarf ekki endilega að vera. Ef svo væri, þá væri ekki hægt að enda betur. En ég er ekki að hugsa um þetta. Tímabilið framlengdist um þrjár vikur og ég hef einbeitt mér að því," sagði Brynjar.
Hann hefur ekki átt fast sæti í liði Reading en samt átt drjúgan þátt í velgengni liðsins. Hann átti stórleiki gegn Everton og Manchester City í bikarkeppninni og leikið þýðingarmikið hlutverk þegar lögð hefur verið áhersla á að þétta miðjuna.
„Við stefndum að því í byrjun tímabilsins að enda í einu af sex efstu sætunum. Útlitið var ekki gott um mitt tímabilið, við vorum í miðri deild og þurftum góðan endasprett til að komast í umspilið," sagði Brynjar en Reading endaði í 5 . sæti og vann síðan Cardiff í undanúrslitum umspilsins.
Brynjar lék með Reading í úrvalsdeildinni 2006-2008 en hann hefur spilað með liðinu frá 2005.