Martinez hafnaði Aston Villa

Roberto Martinez fagnað eftir að Wigan hélt sér í deildinni …
Roberto Martinez fagnað eftir að Wigan hélt sér í deildinni í vor. Reuters

Roberto Martinez knattspyrnustjóri Wigan hefur hafnað boði Aston Villa um að taka við stjórn liðsins af Gérard Houllier, og heldur áfram starfi sínu hjá Wigan.

Dave Whelan, stjórnarformaður Wigan, gaf Martinez leyfi til að ræða við Aston Villa, en hann hafnaði því.

„Roberto hitti stjórnarformann sinn fyrr í vikunni og hann hefur tekið þá ákvörðun að standa við samkomulag sitt við Wigan. Þessvegna höfum við ekki sest niður með Roberto og ekki fengið tækifæri til að ræða um starf knattspyrnustjóra hjá okkur við hann," sagði í yfirlýsingu sem Aston Villa sendi frá sér í dag.

Wigan hélt sæti sínu í úrvalsdeildinni eftir harðan slag í vor. Félagið kom uppí deildina í fyrsta skipti árið 2005 og hefur haldið sér þar síðan, oft þvert ofan í allar spár.

Martinez, sem er 37 ára gamall Spánverji, hefur stýrt Wigan undanfarin tvö ár en var áður með lið Swansea.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert