Ívar Ingimarsson fyrrverandi landsliðmaður í knattspyrnu og leikmaður Reading er genginn í raðir Ipswich Town. Hann var leystur undan samningi hjá Reading og greiðir Ipswich því ekkert fyrir Ívar. Hann gerir eins árs samning samkvæmt heimasíðu félagsins.
Ívar spilaði í átta ár hjá Reading og tók þátt í yfir 280 leikjum hjá félaginu en ljóst er að reynsla hans á eftir að nýtast Ipswich vel í átökunum í fyrstu deildinni.
Ívar er aðeins einn af þremur Íslendingum sem spilað hefur yfir 500 leiki í deildakeppni.
„Ég ræddi við Ívar þegar við vorum báðir á Spáni og þetta er ákveðið, hann mun vera með okkur frá fyrsta degi undirbúningstímabilsins,“ sagði Paul Jewell knattspyrnustjóri félagsins.
„Hann er reynslumikill leikmaður sem veit um hvað fyrsta deildin snýst og hvað þarf til að ná árangri. Ég er mjög ánægður að hann verði með okkur á næstu leiktíð.“