Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur hafnað samningstilboðinu sem enska úrvalsdeildarliðið Fulham gerði honum á dögunum. Vefsíðan Fótbolti.net fullyrti þetta í gærkvöldi og fram kemur að áreiðanlegar heimildir séu fyrir fréttinni.
Eiður er laus allra mála hjá Stoke City og er að leita sér að nýju félagi eins og fram hefur komið. Fram kemur hjá Fótbolta.net að brotthvarf knattspyrnustjórans Marks Hughes frá Fulham hafi haft mikið að segja um ákvörðun Eiðs.
Hughes fékk Eið til Fulham á lánssamningi í vetur og gaf honum nokkur tækifæri þegar á leið tímabilið en þeir eiga ýmislegt sameiginlegt og hafa báðir leikið með Barcelona og Chelsea. Hughes sagði hins vegar upp störfum á dögunum og Martin Jol tók við.