Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að það sé ekki snjallt af stjórn úrvalsdeildarinnar að setja fyrsta leikdag hennar á laugardaginn 13. ágúst, tæpum þremur sólarhringum eftir alþjóðlegan leikdag þar sem mörg landslið verða á ferðinni.
Miðvikudaginn 10. ágúst er fjöldi landsleikja, aðallega vináttulandsleikir, en Norður-Írar eiga m.a. leik í undankeppni EM, gegn Færeyingum. Dalglish vill að fyrstu umferðinni sé seinkað um sólarhring, til sunnudagsins 14. ágúst.
„Ég set spurningarmerki við hvers vegna deildin eigi að byrja á laugardegi rétt á eftir þessum landsleikjum. Félögin hafa unnið hörðum höndum að því að ná í nýja leikmenn, sem þá eru vanalega landsliðsmenn. Það er ekkert spilað í vikunni eftir fyrstu umferðina þannig að ég skil ekki hversvegna ekki er hægt að setja hana á sunnudaginn, til að gefa mönnum betra svigrúm til að skila sér úr landsleikjunum," sagði Dalglish við BBC.
Dalglish og hans menn í Liverpool eiga heimaleik gegn Sunderland í fyrstu umferðinni, 13. ágúst.