Jim Jefferies, knattspyrnustjóri skoska úrvalsdeildarliðsins Hearts, kveðst spenntur að sjá til Kára Árnasonar, sem er til reynslu hjá félaginu eftir að hafa verið rekinn frá enska félaginu Plymouth í síðustu viku fyrir að neita að afsala sér hluta þeirra launa sem hann á inni þar.
„Eggert Jónsson þekkir hann, og svo hafa menn á borð við John Blackley gefið honum góð meðmæli. Við munum skoða hann mjög vel næstu vikuna. Hann er með lausan samning svo þetta er vel þess virði," sagði Jefferies við BBC.
Umræddur Blackley er fyrrum landsliðsmaður Skotlands sem starfaði sem þjálfari hjá Plymouth fyrra tímabilið sem Kári lék með liðinu.
Kári er kominn með Hearts til Tuscany á Ítalíu en þar hóf liðið undirbúningstímabilið í morgun og dvelur þar í æfingabúðum í viku.