Landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson er sterklega orðaður við velska liðið Cardiff City í enskum fjölmiðlum í dag og er jafnvel búist við því að hann gangi í raðir liðsins í vikunni.
Samningur Arons við Coventry rann út um mánaðarmótin og í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku sagðist Aron vera á förum frá liðinu. Hann sagðist vera með tilboð frá fjórum liðum, einu ensku úrvalsdeildarliði, tveimur liðum úr ensku 1. deildinni og liði úr þýsku Bundesligunni.
,,Það er mörg félög sem vilja fá Aron og Cardiff er eitt af þeim sem kemur sterklega til greina. Cardiff á góða möguleika á að semja við Aron,“ segir Jerry de Konning umboðsmaður Arons við netmiðilinn walesonline.
Cardiff hefur verið í harðri baráttu um sæti í ensku úrvalsdeildinni á undanförnum árum en ekki tekist að komast alla leið. Liðið féll út í umspili í vor.