Landsliðsmaðurinn Aron Einar Gunnarsson var rétt í þessu að skrifa undir þriggja ára samning við velska liðið Cardiff City sem leikur í ensku 1. deildinni. Hann staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Aron stóðst læknisskoðun hjá félaginu og í kjölfarið skrifaði hann undir samninginn.
Aron, sem er 22 ára gamall, hefur leikið með Coventry City í sömu deild undanfarin þrjú ár. Cardiff hefur verið í harðri baráttu um sæti í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár en féll í vor út gegn Reading í umspili.
Aroni er ætlað stórt hlutverk hjá Cardiff en fleiri lið sóttust eftir kröftum hans og þeirra á meðal var enska úrvalsdeildarliðið WBA. Þá var hann með tilboð frá liði í þýsku Bundesligunni og fleiri liðum úr ensku 1. deildinni en eftir að hafa vegið og metið hlutina þá ákvað hann að taka tilboði Cardiff.