Chelsea hafði betur gegn enska 2. deildarliðinu Wycombe, 3:0, í æfingaleik sem háður var fyrir luktum dyrum á æfingasvæði Chelsea í kvöld. Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn André Villas-Boas.
Yossi Benayoun, Fernando Torres og Serbinn Slobodan Rajkovic, sem var í láni hjá hollenska liðinu Vitesse á síðustu leiktíð, skoruðu mörk Chelsea í leiknum en 23 leikmenn tóku þátt í leiknum fyrir Chelsea og lék enginn meira en í 45 mínútur.
Frank Lampard, Petr Cech og Alex tóku ekki þátt í leiknum vegna meiðsla en reiknað er með að þeir verði allir með liðinu á laugardaginn þegar það spilar fyrsta opinbera leikinn en það verður gegn Hermanni Hreiðarssyni og félögum hans í Portsmouth.