Grískir fjölmiðlar segja að Eiður Smári Guðjohnsen sé í viðræðum við gríska knattspyrnufélagið AEK í Aþenu um tveggja ára samning og hann hafi fundað með Arnari Grétarssyni, sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.
Fréttavefur sem tengdur er AEK segir að Arnar hafi hitt Eið Smára og Arnór föður hans og umboðsmann á hóteli í London og þar hafi Eiði verið boðinn samningur sem geri hann að launahæsta leikmanni gríska félagsins.
Fastlega hefur verið gert ráð fyrir að Eiður væri á leið til West Ham og samkvæmt enskum fjölmiðlum gekkst hann undir læknisskoðun þar á fimmtudaginn.
AEK gekk í vikunni frá kaupum á varnarmanninum Elfari Frey Helgasyni frá Breiðabliki og Arnar lék sjálfur með félaginu í þrjú ár á sínum tíma.