Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester United hefur ítrekað á ný að Hollendingurinn Wesley Sneijder sé ekki á leiðinni til félagsins frá Inter eins og gefið hefur verið í skyn.
Ferguson var spurður um Sneijder af PA Sport í Seattle en United-menn hafa verið á ferð um Bandaríkin.
„Gleymið því. Við erum að skoða ýmsa hluti en ég efast um að það sé hægt að fá Sneijder. Ég gæti valið þrjá eða fjóra leikmenn til að koma til okkar en þeir yrðu ekki nægilega góðir fyrir okkur svo það þjónar engum tilgangi,“ sagði Ferguson sem hefur trú á leikmannahópnum eins og hann er núna.
„Ég er sáttur við hann eins og hann er. Kannski erum við með fullmikið af framherjum. Möguleikarnir á miðjunni eru ekki nærri eins góðir en ég er með góðan leikmannahóp,“ sagði Ferguson.