Ítalski framherjinn Federico Macheda, leikmaður Manchester United, segir að dvöl sín hjá Sampdoria hafi gert sér gott þrátt fyrir að illa hafi gengið að skora og liðið skuli hafa fallið niður úr ítölsku A-deildinni.
„Þessir sex mánuðir í burtu frá United þroskuðu mig mikið. Í því ljósi er gott að hafa farið til Sampdoria. Þetta var erfiður tími enda féll Sampdoria en svona erfið reynsla getur gert þig að betri manneskju og leikmanni,“ sagði Macheda sem er staddur með öðrum leikmönnum United í Bandaríkjunum.
Macheda skoraði tvívegis fyrir United í æfingaleik gegn New England Revolution í Boston í síðustu viku og fær líklega að spreyta sig gegn Seattle Sounders í nótt, sérstaklega í ljósi þess að Dimitar Berbatov á við smávægileg meiðsli að stríða. Hann gerir sér vonir um að geta fetað í fótspor Javier Hernández sem var frábær fyrir Englandsmeistarana á síðustu leiktíð.
„Það er gott að hafa mann eins og Chicharito í hópnum. Hann hefur verið frábær fyrir United og ég samgleðst honum því hann er frábær náungi og úrvals leikmaður. Það er gott að hafa svona leikmann sér til fyrirmyndar því það er hægt að læra af honum á hverjum degi,“ sagði Macheda.