Ef marka má fréttir enska blaðsins The Mirror í dag hefur Inter samþykkt 30 milljón punda tilboð frá Manchester United í hollenska miðjumanninn Wesley Sneijder. Í blaðinu kemur fram að félagið hafi gefið Sneijder leyfi til að ræða við United og munu þær viðræður fara fram í vikunni.
Það eina sem getur komið í veg fyrir félagaskiptin eru launin en Sneijder vill ekki taka á sig launalækkun. Hann fær jafnvirði 190.000 punda í vikulaun hjá Inter sem er um 36 milljónir króna en svo há laun er United ekki reiðubúið að greiða.
Manchester-liðið er hins vegar tilbúið til að greiða Hollendingum ríflegar bónusgreiðslur og nú er bara að sjá hvort Sneijder geri sér það að góðu eða ekki en Sir Alex Ferguson hefur lengi haft augastað á leikmanninum og sér hann fyrir sér sem arftaka Paul Scholes.