Skagamaðurinn Jóhannes Karl Guðjónsson gæti leikið knattspyrnu hérlendis næsta sumar en allar líkur eru á því að hann og fjölskylda hans muni flytja heim til Íslands næsta vor þegar samningur hans við enska félagið Huddersfield rennur út.
„Eins og staðan er í dag þá er það nú eiginlega ákveðið og það er kominn sá tímapunktur að okkur langar til að koma til Íslands. Næsta vor verða þetta orðin fjórtán ár sem við höfum verið saman úti og hugurinn er farinn að leita heim. Eins og málin hafa þróast núna hjá Huddersfield þá hjálpar það líka til og þetta virðist vera ágætur tímapunktur til að fara heim,“ sagði Jóhannes sem verður 32 ára gamall næsta vor og stór biti á íslenskum leikmannamarkaði.
Jóhannes átti fast sæti í liði Huddersfield megnið af síðasta tímabili en sér ekki fram á að spila mikið í vetur. „Stjórinn sótti sér fleiri miðjumenn í sumar og getur ekki lofað mér því að ég fái mikið að spila á þessu tímabili. Ég átti í smávægilegum vandræðum eftir áramót vegna meiðsla aftan í læri og gat ekki verið á fullri ferð. Svekkelsið var mikið þegar hann var ekki með mig í liðinu í úrslitaleiknum í umspilinu á Old Trafford síðasta vor. Þegar leið á undirbúningstímabilið þá fékk ég þau skilaboð frá honum að ég yrði ekki byrjunarliðsmaður í vetur. Þá er alveg eins gott að reyna að leysa þá stöðu með einhverjum hætti, hvernig sem það verður gert,“ sagði Jóhannes en stutt er síðan hann fékk þessi skilaboð og því eru hans mál ekki komin á mikla hreyfingu.
Nánar er rætt við Jóhannes Karl í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.