Arsenal greinir frá því á vef félagsins að það hafi komist að samkomulagi við Manchester City um kaup City á franska miðjumanninum Samir Nasri.
Nasri æfði með Arsenal-liðinu í morgun og átti að fara með því til Ítalíu síðdegis í dag en liðið mætir Udinese í seinni leiknum í umspili Meistaradeildarinnar annað kvöld. Nú er hann hins vegar á leið í læknisskoðun og í framhaldinu mun hann skrifa undir samning við Manchester-liðið.
Nasri er 24 ára gamall og hefur leikið með Arsenal undanfarin þrjú ár. Þar með hefur Arsenal misst tvo af sínum bestu leikmönnum en sem kunnugt er gekk Cesc Fabregas í raðir Evrópu- og Spánarmeistara Barcelona á dögunum.
Talið er að Manchester City greiði um 24 milljónir punda fyrir Nasri en það jafngildir 4,5 milljörðum íslenskra króna. Arsene Wenger ætti því loks að geta tekið upp veskið og keypt einhverja þungavigtarmenn en liðið fékk um 5 milljarða króna fyrir Fabregas.