Ferguson: Wenger þarf eyrnatappa

Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger ræða málin.
Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger ræða málin. Reuters

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að sú gagnrýni sem kollegi hans Arsene Wenger hjá Arsenal hefur fengið að undanförnu sé fáránleg og hann ætti að fá sér eyrnatappa til að þurfa ekki að hlusta á hana.

Ferguson og Wenger hafa löngum verið miklir keppinautar og stundum sent hvor öðrum tóninn, en um leið sýnt hvor öðrum mikla virðingu og eru sagðir miklir mátar utan vallar. Ferguson sagði í viðtali við götublaðið The Sun að Wenger ætti að leiða allar gagnrýnisraddir hjá sér.

„Við lifum í brjáluðum heimi. Gagnrýnin er mikil og ef þú tapar tveimur leikjum er gelt á þig úr öllum áttum. Nú tala allir um Arsenal og að Arsene ætti að fara. En hver á að fylla hans skarð? Þetta er fáránleg staða. Maðurinn er hreinlega ótrúlegur. Hann hefur komið Arsenal á stall sem enginn bjóst við að væri hægt.

Hann á að halda áfram og á ekki að hlusta á þessa gagnrýni. Eitt af því nauðsynlega í þessu starfi er að eiga eyrnatappa," sagði Ferguson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert