Wenger: United er sigurstranglegast

Arsene Wenger mætir með sína menn á Old Trafford á …
Arsene Wenger mætir með sína menn á Old Trafford á sunnudaginn. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði á fréttamannafundi í dag að andstæðingarnir á sunnudaginn, Manchester United, væru sigurstranglegastir í ensku úrvalsdeildinni á nýhafinni leiktíð.

Liðin mætast á Old Trafford en þau hafa byrjað deildina á ólíkan hátt. United er með sex stig eftir sigra á WBA og Tottenham en Arsenal er aðeins með eitt stig eftir jafntefli við Newcastle og tap gegn Liverpool og hefur ekki skorað mark.

„Þeir eru sigurstranglegastir því þeir unnu deildina í fyrra og virðast síst lakari nú. Það er síðan í okkar höndum að sjá til þess að þeir sigri ekki í vetur. Þeir hafa náð að endurnýja sitt lið vel, miðað við árið þar á undan, og eru enn með reynda og öfluga menn á bekknum. Síðasta sunnudag sátu þar til dæmis þeir Berbatov, Giggs, Carrick og Park, sem gætu allir byrjað inná gegn okkur," sagði Wenger.

„En þetta verður mjög áhugaverður leikur því við erum í fínu formi og ég vona að menn verði ekki fyrir vonbrigðum með gæði leiksins. Við munum að sjálfsögðu gefa allt okkar í leikinn," sagði Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka