Aron Einar Gunnarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, spilar ekki með Cardiff gegn Portsmouth í ensku 1. deildinni í knattspyrnu í dag. Malky Mackay knattspyrnustjóri hafði vonast eftir því að geta notað Aron sem er að jafna sig eftir ökklameiðsli, en ekkert varð af því.
Hermann Hreiðarsson er ekki í leikmannahópi Portsmouth í dag og Ívar Ingimarsson er ekki með Ipswich vegna meiðsla en lið hans tekur á móti Leeds. Brynjar Björn Gunnarsson er varamaður hjá Reading sem sækir Hull City heim en allir leikir 1. deildar hefjast klukkan 14.
Í 1. deildinni tróna Southampton og Derby á toppnum með 12 stig eftir fjórar umferðir en Middlesbrough og Brighton koma þar á eftir með 10 stig.