Brighton á toppi 1. deildarinnar

Nýliðar Brighton hafa komið skemmtilega á óvart í ensku 1. deildinni í knattspyrnu og eru efstir að lokinni fimmtu umferðinni í dag með 13 stig. Þeir lögðu aðra nýliða, Peterborough, 2:0, og eru einir á toppnum.

Southampton og Derby, sem höfðu bæði unnið fjóra fyrstu leiki sína, töpuðu bæði, Southampton 2:3 gegn Leicester á útivelli og Derby 1:2 gegn Burnley á heimavelli. Þau eru áfram með 12 stig í öðru og þriðja sæti en síðan koma Middlesbrough með 11 stig og Crystal Palace með 10 stig.

Enginn Íslendingur lék í 1. deildinni í dag. Brynjar Björn Gunnarsson var varamaður og kom ekki við sögu hjá Reading sem tapaði 0:1 fyrir Hull á útivelli. Aron Einar Gunnarsson lék ekki með Cardiff vegna meiðsla þegar lið hans gerði 1:1 jafntefli í Portsmouth. Hermann Hreiðarsson var ekki í hópnum hjá Portsmouth. Þá var Ívar Ingimarsson ekki með Ipswich vegna meiðsla þegar lið hans sigraði Leeds, 2:1.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert