Manchester United vann stórsigur á Arsenal 8:2 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Rooney skoraði þrennu og þar af tvö úr aukaspyrnu, þriðja markið var úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Evra. Ásamt því að leggja upp mörk skoraði Ashley Young tvö af mörkum United. Þau voru bæði stórglæsileg og mjög svipuð. Danny Welbeck heldur áfram að skora og það með skalla. Hann skoraði fyrsta markið á 21. mínútu. Hann fór svo af velli skömmu síðar. Park Ji-Sung skoraði svo eitt en hann hafði þá nýkomið inná sem varamaður fyrir Nani sem skoraði eitt af stuttu færi.
Theo Walcott skoraði fyrra mark Arsenal þegar hann minnkaði muninn í 3:1 með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks. Robin Van Persie fyrirliði Arsenal skoraði síðara mark gestanna og breytti stöðunni í 6:2. Carl Jenkinson fauk útaf með tvö gul spjöld á 77. mínútu en það breytti í raun engu því úrslitin voru ráðin. Arsenal á því enn eftir að klára leik í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð með ellefu menn á vellinum.
Manchester United er eftir leikinn í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir líkt og Manchester City. United er hinsvegar með betri markatölu eða eitt mark.
Fylgst var með gangi mála hér að neðan.
90. MARK! 8:2 - Ashley Young skorar og kemur þar með United á toppinn miðað við markatölu en grannar þeirra í City voru með sömu markatölu fyrir þetta mark. Markið mjög svipað og það fyrra hjá Young í þessum leik. Skaut með hægri vinstra megin rétt fyrir utan vítateig og boltinn í efst í fjærhornið.
84. Theo Walcott og Robin Van Persie, markaskorurum Arsenal, er skipt útaf fyrir Marouane Chamakh og Henry Lansbury.
81. MARK! 7:2 - Wayne Rooney skorar þriðja mark sitt og sjöunda mark United. Setti boltann hægra megin við Szczesny sem skutlaði sér í vitlaust horn.
80. United fær vítaspyrnu eftir brot Walcotts á Evra.
77. Rautt spjald - Carl Jenkinson leikmaður Arsenal fær sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Javier Hernandez. United fær aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig en Rooney sendir boltann framhjá að þessu sinni.
74. MARK! 6:2 - Robin Van Persie minnkar muninn fyrir Arsenal sem sóttu hratt. Persie stóð einn eftir á fjærstönginni þar sem hann fékk sendingu frá hægri. Hann átti ekki í vandræðum með að koma boltanum framhjá De Gea í markinu. Þetta var of lítið og of seint hjá Lundúnarliðinu en engu að síður komin átta mörk í þessum leik.
70. MARK! 6:1 Park Ji-Sung er að fullkomna niðurlægingu Arsenal með 6. marki United. Ashley Young átti sendinguna á Park sem lék á varnarmann Arsenal og setti hann svo milli fóta hans í hornið fjær. Park nýkominn inná sem varamaður fyrir Nani.
70. Wayne Rooney nálægt því að bæta við þriðja marki sínu. Skot í stöng af töluvert löngu færi.
68. Þetta var síðasta snerting Nani í leiknum því hann og Anderson fóru af velli fyrir þá Ryan Giggs og Park Ji-Sung.
67. MARK 5:1 - Það er allt hrunið hjá Arsenal. Nani skorar með því að vippa yfir Szczesny en hann var einn gegn honum eftir frábæra stungusendingu Rooney.
64. MARK! 4:1 - Annað mark Rooneys úr aukaspyrnu og líkt og í fyrra markinu potaði hann boltanum á Young sem stöðvaði boltann. Aukaspyrnan var hægra megin við miðjuna en Rooney setti boltann í vinstra hornið. Szczesny kom engum vörnum við og reyndi það ekki einu sinni.
59. Nani í dauðafæri rétt fyrir utan markteiginn eftir sendingu frá Ashley Young sem hafði reynt skot að marki en Szczesny varði. Nani hitti hreinlega ekki boltann.
56. Andrei Arshavin gerir sig líklegan, komst framhjá Phil Jones varnarmanni United en skot hans af Jonny Evans og afturfyrir. Arshavin þarna í góðu færi til að bæta við marki fyrir Arsenal. Það er allt annað að sjá til gestana í síðari hálfleik.
53. Robin Van Persie í fínu færi en skot hans varið af De Gea. Persie fékk góða sendingu inn fyrir vörnina og tók boltann í fyrsta. De Gea varði hinsvegar boltann sem stefndi í markhornið hægra megin.
46. Seinni hálfleikur er hafinn.
45. Hálfleikur og staðan 3:1. Welbeck, Young og Rooney skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins fyrir United en Walcott minnkaði muninn á síðustu andartökum hálfleiksins.
45. MARK! 3:1 - Theo Walcott minnkar muninn þegar rétt tæpar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik. Rosicky átti stungusendingu inn fyrir vörnina á Walcott sem sendi boltann á milli fóta De Gea í marki United. Markið lífsnauðsynlegt fyrir Arsenal sem á nú einhverja von á að næla í stigið. Hún er þó ekki mikil sú von!
42. MARK! 3:0 - Wayne Rooney skorar þriðja mark United og það beint úr aukaspyrnu. Brotið var á Ashley Young rétt fyrir utan vítateiginn vinstra megin. Rooney tók spyrnuna, gaf stutta sendingu á Young sem stoppaði boltann og Rooney þrumaði honum yfir vegginn efst í markhornið. Úrslitin virðast svo gott sem ráðin þó enn sé fyrri hálfleikur.
36. Markaskorarinn Danny Welbeck er farinn af velli. Hann meiddist aftan í læri og Javier Hernandez leysir hann af hólmi. Skömmu áður var Arshavin sem er á spjaldi heppinn að fjúka ekki útaf fyrir ljótt brot.
31. David De Gea að verja frábærlega, fyrst langt skot frá Arshavin og síðan af stuttu færi frá Persie sem hirti frákastið. Þetta er alvöru leikur!
28. MARK! 2:0 - Ashley Young skorar frábært mark. Fékk boltann frá varnarmanni Arsenal rétt fyrir utan vítateiginn vinstra megin. Hann tók eitt skref inn að miðju og þrumaði boltanum efst í markhornið. Glæsilegt mark! og það aðeins mínútu eftir að Persie klúðraði víti hinum megin á vellinum.
27. David De Gea ver vítaspyrnuna frá Robin Van Persie. Spyrna hans laus hægra megin við De Gea sem ver boltann auðveldlega. Mikilvæg markvarsla.
26. Arsenal fær víti eftir brot Evans á Theo Walcott.
22 MARK! 1:0 Danny Welbeck er búinn að koma United yfir með skallamarki. Hann fékk frábæra sendingu frá Anderson sem vippaði boltanum yfir vörn Arsenal. Þeir brugðust ekki við og Welbeck skallaði boltann í netið af stuttu færi. Frábært mark frá United en að sama skapi lélegur varnarleikur hjá gestunum frá London.
15. United hefur byrjað þennan leik betur og átti Danny Welbeck ágætt skot eftir um 5 mínútna leik en það framhjá markinu. Staðan þó enn 0:0.
1. Leikurinn er hafinn.
Manchester United: De Gea, Smalling, Jones, Evans, Evra, Nani, Cleverley, Anderson, Young, Rooney, Welbeck.
Varamenn: Lindegaard, Ferdinand, Giggs, Park, Berbatov, Chicharito, Fabio
Arsenal: Szczesny, Jenkinson, Djourou, Koscielny, Traore, Coquelin, Ramsey, Rosicky, Walcott, Van Persie, Arshavin.
Varamenn: Fabianski, Oxlade-Chamberlain, Chamakh, Lansbury, Miquel, Ozyakup, Sunu.