Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United stendur þétt við bakið á spænska markverðinum David de Gea og telur að hann eigi eftir að gera það gott á Old Trafford þó svo að hann hafi gert mistök í leikjum United í upphafi leiktíðarinnar.
United keypti Spánverjann unga frá Atletico Madrid í sumar og greiddi fyrir hann 18 milljónir punda. De Gea gerði sig sekan um mistök í leiknum gegn Manchester City um Samfélagsskjöldinn og eins í deildarleiknum á móti WBA.
„David hefur gert nokkur mistök í fyrstu leikjum sínum. Við reiknuðum ekki með því né hann sjálfur. Þetta var óvenjulegt því hann átti einstaklega góðu gengi að fagna með Atletico Madrid.
En það er enginn vafi að De Gea býr yfir miklum hæfileikum og það er okkar að gera hann að toppmarkverði. Hann verður það með aukinni reynslu og þegar hann hefur náð að átta sig á enska boltanum. Leikirnir á Englandi eru öðruvísi en á Spáni. Það er meira um fyrirgjafir í enska boltanum og meira um návígi,“ sagði Ferguson.
De Gea verður í eldlínunni með Englandsmeisturunum á laugardaginn en þá mæta þeir Grétari Rafni Steinssyni og samherjum hans í Bolton.