Þungi fargi var létt af Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal, í gær eftir að lið hans innbyrti fyrsta sigurinn á tímabilinu og hélt markinu hreinu eftir útreiðina sem liðið fékk gegn Manchester United á Old Trafford. Wenger var afar ánægður með nýju leikmennina, Per Mertesacker og Mikel Arteta, sem léku sinn fyrsta leik með liðinu.
,,Þetta var ákaflega mikilvægur sigur. Við byrjuðum leikinn vel en síðan var hálfgerð taugaveiklun og skýringin er skortur á sjálfstrausti. Swansea-liðið veitti okkur harða mótspyrnu því það hélt boltanum vel en við höfðum sigur og ég er ánægður með það,“ sagði Wenger.
,,Mertesacker var yfirvegaður og öruggur. Hann þarf að aðlagast hraðanum en hann er skynsamur og góður spilari. Arteta spilaði virkilega vel og þá einkum í fyrri hálfleik. Hann bjó til margt og er lykilmaður í okkar spili,“ sagði Wenger.