Wenger: Verðum að vinna bikar í vetur

Mikel Arteta og Per Mertesacker eru tveir af nýju mönnunum …
Mikel Arteta og Per Mertesacker eru tveir af nýju mönnunum hjá Arsenal. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði á fréttamannafundi í gær að lið hans yrði að krækja sér í titil á þessu keppnistímabili og það væri ekki nóg að stefna á að ná aftur fjórða sætinu í úrvalsdeildinni.

Arsenal byrjaði tímabilið afar illa, fékk eitt stig í fyrstu þremur leikjunum og tapaði þá 2:8 fyrir Manchester United á Old Trafford. Wenger keypti fimm nýja menn í kjölfarið og innbyrti fyrsta sigurinn um síðustu helgi, 1:0 gegn Swansea. Nú er hann kominn með sitt lið til Blackburn þar sem fyrsti leikur þessarar helgar hefst á Ewood Park klukkan 11.45.

"Nú byrjar þetta allt aftur vegna þess að við keyptum fimm nýja menn en það er ljóst að ég mun ekki sætta mig við að ná bara fjórða sæti í deildinni," svaraði Wenger spurningu um hvort hann yrði ánægður með að ná sama sæti og á síðasta tímabili.

„Hve langan tíma hefur maður til að byggja upp á nýtt? Í dag er enginn tími. Það er vissulega erfitt að fást við að byggja upp og þurfa að uppfylla væntingar á sama tíma. Ég veit ekki hvort stuðningsmenn okkar skilja það en ég vil bara gera þá ánægða og það gerir maður með því að vinna leiki. Við munum gera allt til þess," sagði Wenger sem hefur ekki náð að vinna titil með Arsenal í sex ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert