Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að fjölmiðlar séu í herferð til að reyna að eyðileggja ferilinn hjá markverðinum unga, David de Gea, sem United keypti af Atlético Madrid í sumar fyrir 17 milljónir punda.
De Gea hefur fengið á sig nokkur klaufaleg mörk í upphafi tímabilsins, enda þótt það hafi ekki komið að sök fyrir Manchester United sem hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína í ensku úrvalsdeildinni. Ferguson var síðan spurður mikið um hann á miðvikudaginn þegar hann lét Anders Lindegaard spila Meistaradeildarleikinn gegn Benfica.
„De Gea er greinilega á dagskránni hjá fjölmiðlunum og við fundum það á ný á miðvikudaginn. Mér virðist sem menn séu ákafir í að honum mistakist. Það er mín tilfinning og ég skil ekki hvernig stendur á því. De Gea hefur ekki misstigið sig í markteignum, hann hefur verið frábær,“ sagði Ferguson við Mail on Sunday.
„Báðir markverðirnir okkar eru góðir með boltann, sem er frábær hæfileiki í nútímafótbolta. Um síðustu helgi, gegn Bolton, var de Gea upphafsmaður að sjö sóknum. Hann átti góðar sendingar sem skiluðu sér í spili alla leið inn í vítateiginn og ég held að 90 prósent af sendingum hans hafi verið á samherja,“ sagði Ferguson, sem lýsti því yfir á miðvikudag að Spánverjinn yrði í marki United í stórleiknum gegn Chelsea í dag, enda þótt Lindegaard hefði átt frábæran leik gegn Benfica í Lissabon.
„De Gea hefur þurft að takast á við margt og hefur höndlað það vel. Hann er tvítugur og var að koma í nýtt land þar sem hann þekkir ekki menninguna. Hann talar ekki ensku, hann hefur verið að leita sér að húsi, og hefur verið í ökunámi í Englandi,“ sagði Ferguson, sem líka fór fögrum orðum um Lindegaard.
„Anders sýndi í Lissabon að hann er fjandi góður markvörður en David spilar á sunnudag. Það var planið. Við erum með tvo frábæra markverði. Anders hefur staðið sig mjög vel og er þolinmóður. Hann vissi að við myndum fá okkur annan markvörð. Hann er ánægður með að vera hjá United og vera í baráttu um stöðu í liðinu,“ sagði Alex Ferguson.
Manchester United tekur á móti Chelsea á Old Trafford klukkan 15 í dag.