Robert Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, kvartaði yfir því að hafa ekki nógu marga miðjumenn í sínum hópi eftir jafnteflið, 2:2, við Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær.
City missti þar niður tveggja marka forskot eftir að Sergio Agüero hafði skoraði tvívegis. Bobby Zamora og Danny Murphy náðu að jafna metin fyrir Fulham sem er enn án sigurs í deildinni. City tapaði hinsvegar sínum fyrstu stigum eftir að hafa unnið fjóra fyrstu leikina á tímabilinu.
Manchester City hefur keypt leikmenn fyrir um 400 milljónir punda síðustu þrjú árin en Mancini sá samt ástæðu til að ræða um of litla breidd í sínum hópi en miðjumennirnir James Milner og Nigel de Jong eru frá vegna meiðsla.
„Okkur vantar miðjumenn um þessar mundir því tveir þeirra eru úr leik. Ég á bara tvo þar sem James og de Jong eru meiddir. Ég get bara fært til bakverðina mína,“ sagði Mancini við fréttamenn og gaf síðan í skyn að hugarfar sinna manna væri ekki rétt.
„Hvaða lið kemur hingað, spilar við Fulham og er með boltann 70 prósent af leiknum? Við áttum við sama vanda að etja gegn Wigan, fengum 15 færi í fyrri hálfleik en skoruðum eitt mark. Það getur farið illa ef menn skora ekki og gera út um leikinn. Svo varðist liðið ekki sem skyldi. Á tíu mínútna kafla tóku aðeins 5-6 leikmenn þátt í varnarleiknum. Það er ekki nógu gott. Ég er ekki reiður en ég er vonsvikinn yfir því að við skyldum gefa þeim tvö fáránleg mörk,“ sagði Mancini.