André Villas-Boas, knattspyrnustjóri Chelsea, staðfesti í dag að félagið hefði rætt við yfirmann dómaramála úrvalsdeildarinnar, Mike Riley, um frammistöðu dómaratríósins í stórleiknum við Manchester United á Old Trafford á sunnudaginn.
Sjónvarpsmyndir leiddu í ljós að tvö marka United í 3:1 sigrinum voru rangstöðumörk og Villas-Boas sagði á fréttamannafundi í dag að hann hefði kvartað til Rileys yfir dómgæslunni.
„Við erum geysilega ósáttir við slaka frammistöðu dómaranna, sem höfðu mikil áhrif á úrslit leiksins þegar upp var staðið. Ég tel þetta ekki léttvægt, maður gerir ráð fyrir því að aðstoðardómararnir séu starfi sínu vaxnir. Ég hef þegar farið lengra með málið með því að leggja það fyrir rétta aðila,“ sagði Villas-Boas.