Roberto Mancini knattspyrnustjóri Manchester City var ánægður fyrir hönd miðjumannsins Owens Hargreaves eftir leikinn gegn Birmingham í enska deildabikarnum en Hargreaves lék sinn fyrsta leik fyrir City og skoraði fyrra mark liðsins í 2:0-sigri á ríkjandi deildabikarmeisturum.
Hargreaves, sem hefur verið frá keppni nánast í þrjú ár, gekk óvænt í raðir Manchester City í sumar en hann fékk samning sinn við Manchester United ekki framlengdan.
„Þetta var gott fyrir hann. Owen er frábær leikmaður sem getur orðið mjög mikilvægur fyrir okkur. Það hafa ekki verið nein vandamál hjá honum síðustu þrjár vikurnar og hann er fínn í hnénu. Við sögðum fyrir leikinn að við ætluðum að láta hann spila í 45-60 mínútur og hann spilaði í klukkutíma og stóð sig mjög vel,“ sagði Mancini.