Brighton, undir stórn Úrúgvæans Gustavo Poyet, mistókst í kvöld að komast á topp ensku B-deildarinnar í knattspyrnu. Liðið tók á móti Leeds United og skildu liðin jöfn í miklum markaleik, 3:3.
Það byrjaði ekki gæfulega fyrir heimamenn því eftir 24 mínútna leik var staðan orðin 2:0, Leeds í hag, með mörkum frá Andrew Keogh og Ross McCormack. Craig Mackail-Smith minnkaði muninn fyrir Brighton á 47. mínútu og Ashley Barnes jafnaði metin á 60. mínútu.
Sex mínútum fyrir leikslok var svo Craig Mackail-Smith aftur á ferðinni þegar hann kom Brighton í 3:2 en á 2. mínútu í uppbótartíma tryggði Ross McCormack Leeds jafntefli þegar hann skoraði annað mark sitt í leiknum.
Brighton er í 2.-3. sæti deildarinnar með 17 stig en Southampton er efst með 18 stig. Leeds er í 9. sætinu með 11 stig.