Alex Ferguson og hans menn hjá Manchester United hafa brugðist fljótt við ummælum Owens Hargreaves um slæma meðhöndlun á meiðslum hans hjá félaginu.
Hargreaves, sem var í fjögur ár hjá United en er nú genginn til liðs við nágrannana í Manchester City, sagði að sér hefði liðið eins og tilraunadýri í höndum læknaliðs United og aðferðir þar hefðu ekki gagnast sér sem skyldi.
„Við erum að reyna að skilgreina nákvæmlega allt sem hann sagði um þetta mál og við munum gefa út sérstaka yfirlýsingu um það síðar. En fyrir mína parta á læknaliðið okkar stóran þátt í þeim árangri sem félagið hefur náð á undanförnum árum. Haldið þið að við værum svona sigursælir ef þetta fólk sinnti ekki starfi sínu 100 prósent? Við erum með stórkostlegt læknateymi - það er mín skoðun og hún hefur meira vægi en skoðanir annarra," sagði Ferguson í morgun.