Man.Utd vísar ummælum Hargreaves á bug

Owen Hargreaves í leik með Manchester United.
Owen Hargreaves í leik með Manchester United. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur birt yfirlýsingu á vef sínum vegna ummæla Owens Hargreaves, fyrrverandi leikmanns félagsins, um þá meðhöndlun sem hann fékk hjá læknaliði United.

Hargreaves sagði þar m.a. að sér hefði liðið eins og tilraunadýri og aðferðir sem læknar United hefðu beitt hefðu ekki skilað árangri.

Í tilkynningunni segir:

„Manchester United lýsir yfir vonbrigðum með ummæli Owens Hargreaves eftir leikinn á miðvikudaginn. Félagið annaðist hann á besta mögulegan hátt í þrjú ár og það voru vonbrigði að hann skyldi ekki ná að taka þátt í sigurgöngu félagsins á þeim tíma. Félagið hefur sent Manchester City öll læknisfræðileg gögn um leikmanninn og hefur fulla trú á öllum þeim aðgerðum sem læknalið félagsins greip til í langri meðferð og endurhæfingu hans.

United getur ekki séð að nein af ummælum Owens séu á rökum reist. Manchester United hefur yfir að ráða læknismenntuðu fólki sem er í fremstu röð í íþróttahreyfingunni í heiminum, og það hefur átt stóran þátt í góðum árangri liðsins innan vallar á undanförnum árum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert