Enska knattspyrnusambandið tilkynnti rétt í þessu að rauða spjaldið sem Jack Rodwell, miðjumaður Everton, fékk í leiknum við Liverpool á laugardaginn hefði verið strikað út.
Rodwell þarf því ekki að afplána þriggja leikja bann vegna brottvísunarinnar og knattspyrnusambandið hefur því komist að þeirri niðurstöðu að Martin Atkinson dómari hefði gert slæm mistök þegar hann rak Rodwell af velli.
Það átti sér stað strax á 23. mínútu leiksins þegar Rodwell renndi sér í návígi við Luis Suárez. Sjónvarpsmyndir sýndu að Rodwell fór löglega í tæklinguna og náði boltanum en Atkinson stóð rétt hjá og lyfti rauða spjaldinu samstundis. Suárez lá eftir og stuðningsmenn Everton bauluðu rækilega á hann það sem eftir lifði leiks.
Liverpool náði síðan að knýja fram 2:0 sigur gegn tíu leikmönnum Everton, með tveimur mörkum á síðustu 20 mínútum leiksins.