Chicharito bjargaði stigi fyrir Man. Utd

Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Reuters

Liverpool og Manchester United skildu jöfn í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni, 1:1. Steven Gerrard kom Liverpool yfir með marki úr aukaspyrnu en varamaðurinn Chicharito jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok.

United er nú með 20 stig á toppi deildarinnar en Liverpool er í 5. sæti með 14 stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. mín. Jordan Henderson átti skalla rétt yfir mark United á 2. mínútu uppbótartíma.

90. mín. Jordan Henderson átti frábæra tilraun þegar hann reyndi bogaskot rétt utan vítateigs en De Gea náði að verja naumlega. Liverpool fékk hornspyrnu og í kjölfarið gerðu heimamenn harða hríð að marki United án árangurs.

82. mín. Nú eru læti! Dirk Kuyt var nálægt því að koma Liverpool yfir á ný en De Gea varði vel frá honum af stuttu færi.

81. mín. MARK! Eftir hornspyrnu frá vinstri skallaði Danny Welbeck boltann áfram á Chicharito sem skoraði eftir að hafa verið inná í fimm mínútur.

79. mín. United-menn vildu vítaspyrnu þegar boltinn fór í handlegg Enrique en líkt og í hinum vítateignum fyrr í leiknum dæmdi dómarinn ekkert.

76. mín. Chicharito var að koma inná í stað Phil Jones. Þriðja og síðasta skipting Man. Utd.

68. mín. Wayne Rooney og Nani komu inná í stað Ashley Young og Ji-Sung Park.

68. mín. MARK! Charlie Adam krækti í heldur ódýra aukaspyrnu rétt utan vítateigsins eftir laglegan sprett. Steven Gerrard tók spyrnuna og skaut í gegnum varnarvegg United í hægra markhornið.

63. mín. Heimamenn eru líklegri til að skora, ekki síst fyrir tilstuðlan Luis Suárez sem átti rétt í þessu skot sem fór af varnarmanni rétt framhjá.

57. mín. Jordan Henderson kom inná í stað Lucas. Fyrsta skipting leiksins.

51. mín. Liverpool-menn vildu fá vítaspyrnu þegar Dirk Kuyt skallaði boltann í handlegg Jonny Evans af stuttu færi eftir hornspyrnu. Dómarinn var vel staðsettur og kaus að dæma ekkert.

46. mín. Seinni hálfleikur er hafinn og liðin eru óbreytt frá því í þeim fyrri.

45. mín. Hálfleikur. Það vantaði talsvert upp á fjörið í fyrri hálfleik og þar hefur varnarsinnuð uppstilling Manchester United haft sitt að segja. Liðin hafa vart skapað sér færi. Á varamannabekkjunum bíða menn eins og Wayne Rooney, Chicharito, Nani og Andy Carroll sem gætu átt eftir að láta til sín taka í seinni hálfleiknum.

34. mín. Charlie Adam átti skot í varnarmann og boltinn hrökk til Luis Suárez sem lék laglega á Jonny Evans utarlega í teignum en átti svo skot beint á De Gea í marki United.

16. mín. Phil Jones, sem leikur á miðjunni í dag, fékk fyrsta færi leiksins þegar hann skallaði í hliðarnetið eftir fyrirgjöf frá Patrice Evra. Leikurinn hefur annars farið rólega af stað og mikið verið um misheppnaðar sendingar.

Liverpool: Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Jose Enrique, Kuyt, Lucas, Adam, Downing, Gerrard, Suarez.
Varamenn: Doni, Agger, Carroll, Henderson, Spearing, Bellamy, Robinson.

Man Utd: De Gea, Smalling, Ferdinand, Evans, Evra, Young, Jones, Fletcher, Park, Giggs, Welbeck.
Varamenn: Lindegaard, Anderson, Rooney, Hernandez, Carrick, Nani, Valencia.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert