Patrice Evra, fyrirliði Manchester United, segir að Luis Suárez, úrúgvæski framherjinn hjá Liverpool, hafi ítrekað viðhaft kynþáttaníð í sinn garð í leik liðanna á Anfield í gær. Enska knattspyrnusambandið hefur tekið málið til rannsóknar.
„Þetta sést allt í sjónvarpinu, þið getið séð hann segja ákveðið orð við mig í það minnsta tíu sinnum í leiknum," sagði Evra við frönsku sjónvarpsstöðina Canal Plus.
Talsmaður Liverpool sagði við BBC að Suárez hafnaði þessum ásökunum algjörlega.
Í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu segir að Andre Marriner dómara hafi verið gert viðvart um þetta undir lok leiksins og hann hefði skráð það í skýrslu sína. Sambandið muni nú hefja rannsókn á málinu.
Leikur liðanna endaði 1:1 þar sem Steven Gerrard kom Liverpool yfir en Javier Hernández jafnaði fyrir United.