Wenger: Margir efuðust um van Persie

Robin van Persie fagnar sigurmarkinu í dag.
Robin van Persie fagnar sigurmarkinu í dag. Reuters

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hældi fyrirliða sínum Robin van Persie á hvert reipi eftir sigurinn á Sunderland í dag, 2:1, en Hollendingurinn skoraði bæði mörkin og lyfti Arsenal uppí 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Robin byrjaði leikinn vel og gerði svo gæfumuninn með sínum hæfileikum þegar hann tryggði okkur sigurinn,“ sagði Wenger á blaðamannafundi eftir leikinn en van Persie skoraði eftir 28 sekúndna leik og svo sigurmarkið á 82. mínútu, beint úr aukaspyrnu.

„Leikmenn Sunderland lögðu allt í leikinn, börðust á hverjum einasta fermetra vallarins og eiga mikið hrós skilið. Við nýttum ekki nógu vel margar aukaspyrnur sem við fengum og þar getum við bætt okkur. En nú höfum við unnið fimm heimaleiki í röð og hugarfar og liðsandinn eru eins og best getur verið.

Margir efuðust um leiðtogahæfileikana hjá Robin en hann hefur helgað sig verkefninu 100 prósent. Hann mun  gefa allt sitt til síðasta dags á sínum samningi en hann veit að við erum tilbúnir í viðræður um nýjan samning. En það sem skiptir mestu máli er að hann er mjög sérstakur fótboltamaður og spilar samkvæmt sinni getu,“ sagði Wenger.

Um meiðsli sinna manna sagði Wenger að hjá Kieran Gibbs hefði tognun í kviðvöðva tekið sig upp og Aaron Ramsey hefði fengið mjög væga þreytuverki aftan í lærið. Gibbs fór af velli eftir 50 mínútur og Ramsey spilaði ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert