Verðum að berjast um efstu sætin

Per Mertesacker með boltann í leik Arsenal við Sunderland í …
Per Mertesacker með boltann í leik Arsenal við Sunderland í gær. Reuters

Per Mertesacker, þýski risinn í vörn Arsenal, segir nauðsynlegt fyrir Lundúnaliðið að komast sem fyrst í námunda við efstu liðin og taka virkan þátt í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.

„Það er nauðsynlegt að við komust í hóp fjögurra efstu í það minnsta, en sem stendur erum við ekki með stigafjölda til að ræða mikið um það í bili. Það skiptir miklu máli að spila vel og klífa töfluna sem fyrst. Stuðningsmenn okkar verða að fá á tilfinninguna að við gefum allt okkar til að ná árangri.

Ég er kominn hingað til að spila fótbolta í hæsta gæðaflokki, í Meistaradeildinni, og vil ná árangri á öllum sviðum í vetur. Við eigum framundan tvo hörkuleiki í hverri viku og það er einmitt sú áskorun sem fylgir því að vera leikmaður Arsenal," segir Mertesacker á vef Arsenal.

Mertesacker, sem er rétt tæpir tveir metrar á hæð, er 27 ára gamall og hefur spilað 78 landsleiki fyrir Þýskaland. Hann kom til félagsins frá Werder Bremen í sumar en hafði áður leikið með Hannover.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert