Liverpool stendur með Suárez

Luis Suárez og Patrice Evra í orðaskiptum á laugardaginn.
Luis Suárez og Patrice Evra í orðaskiptum á laugardaginn. Reuters

Kenny Dalglish, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði í dag að félagið stæði heilshugar með Luis Suárez sem væri ásakaður um að hafa sýnt kynþáttafordóma í garð Patrice Evra í leik liðsins við Manchester United um síðustu helgi.

Enska knattspyrnusambandið er með ágreining leikmannanna til skoðunar en Suárez lýsti strax yfir sakleysi í málinu. Alex Ferguson knattspyrnustjóri United tilkynnti á mánudag að Evra færi lengra með málið.

„Félagið í heild sinni og allir þar innanborðs standa fullkomlega og heilshugar á bakvið Luis Suárez í þessu máli. Eftir leikinn var hann sakaður um að láta sig detta útum allan völl og svo kom þessi ásökun frá Patrice Evra. Þarna eru miklar tilfinningar í gangi en við styðjum okkar mann í báðum málum og það gerum við allir. Málið var afgreitt innan félags í byrjun vikunnar og við segjum ekkert frekar. Nú bíðum við bara eftir fullkominni og gegnsærri skýrslu frá knattspyrnusambandinu," sagði Dalglish við ESPN.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert