Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal segist hafa samúð með Manchester United eftir hroðalega útreið liðsins í grannaslagnum gegn Manchester City á Old Trafford í gær. City slátraði Englandsmeisturunum, 6:1, og náði fimm stiga forskoti á toppi deildarinnar.
,,Þetta kemur á óvart en Frakkland var nálægt því að vinna Nýja-Sjáland í úrslitaleiknum á HM í rúbbý og það kom á óvart. Eins og við þegar við töpuðum 8:2 þá hafa stór úrslit enga sérstaka þýðingu. Þau þýða bara að eitthvað sérstakt hafi gerst í leiknum. Þegar þú ert í þeirri stöðu að þurfa að sækja manni færri á móti góðu liði þá ertu varnarlaus,“ sagði Wenger eftir sigur sinna manna á Stoke þegar hann var inntur álits á úrslitunum á Old Trafford.
Lærisveinar Wengers töpuðu fyrr á leiktíðinni fyrir Manchester United, 8:2, á Old Trafford, en hafa smátt og smátt verið að rétta úr kútnum eftir dapurt gengi í byrjun tímabilsins.